Litla Gula Hænan : Velferðarkjúklingur framleiddur á Íslandi

Velferðarkjúklingur

Litla gula hænan stundar landbúnað þar sem velferð kjúklinganna er höfð að leiðarljósi í gegnum allt framleiðsluferlið.

Kjúklingarnir hafa gott rými til að athafna sig og þegar veður leyfir fá þeir að fara út að leika.

Allt fóður sem þeir fá er óerfðabreytt. Litla gula hænan notar engin aukaefni.

www.facebook.com/litlagula

Saga Litlu gulu hænunnar

Hugmyndin að Litlu gulu hænunni kviknaði yfir kaffibolla haustið 2013 og má segja að fljótlega hafi allt farið á fullt. Okkur fannst sárlega vanta þessa vöru á markaðinn og vorum sjálfar búnar að bíða lengi eftir því að hafa kost á því að versla annars konar kjúkling en þennan hefðbundna. Við ákváðum því að láta slag standa og drífa í þessu sjálfar í stað þess að bíða þangað til einhver annar hefði slíka framleiðslu.

Fyrstu mánuðirnir í starfseminni fóru í framkvæmdir á gömlum útihúsum á Gunnarshólma. Um var að ræða útihús sem höfðu ekki verið notuð í mörg mörg ár og voru í vægast sagt slæmu ástandi. Með hjálp góðra vina og vandamanna náðum við á mettíma og með lágmarkskostnaði að gera þessi hús eins og ný.

 

Í júní 2014 komu svo fyrstu ungarnir í hús. Sá dagur er okkur afar eftirminnilegur. Þrátt fyrir að vera allar bókstaflega andlega og líkamlega úrvinda eftir lítinn svefn og erfiða vinnu mánuðina á undan þá fylltumst við ótrúlegu stolti og gleði þegar litlu krílin komu loksins í hús. Að sama skapi fundum við að þessu nýja hlutverki okkar fylgdi mikil ábyrgð. Að bera ábyrgð á svo mörgum dýrum er afar krefjandi en á sama tíma ákaflega gefandi. Við reynum að láta þeim líða eins vel og mögulegt er á þeirra stuttu ævi og erum sífellt að leita nýrra leiða til þess að gera betur.

 

Kjúklingaframleiðslan

Kjúklingurinn okkar er alinn upp á annan hátt en venjulegt er í kjúklingaframleiðslu á Íslandi. Helsti munurinn felst í að kjúklingarnir okkar fá mun meira rými inni í húsunum en vanalegt er og þeir fá að fara út að viðra sig þegar veður leyfir. Einnig förum við aðrar leiðir hvað varðar fóður. Þeir fá einungis byggblandað óerfðabreytt fóður sem Lífland blandar sérstaklega fyrir okkur ásamt því að fá íslenskt bygg og grænmeti sem við ræktum sjálfar. Það er einnig nýjung í kjúklingaframleiðslu á Íslandi en allt fóður sem notað er í hefðbundinni kjúklingaframleiðslu er innflutt og erfðabreytt.

 


Fyrirtækið

Eigendur Litlu gulu hænunnar eru Margrét Gunnarsdóttir, Elva Björk Barkardóttir og Jóna Margrét Kristinsdóttir.

 

Margrét er sveitastelpa, alin upp í sveit frá unga aldri. Foreldrar hennar voru kúabændur í mörg ár þangað til að þau fóru að rækta túnþökur. Þegar Margrét var komin á fullorðinsár ákvað hún að taka sér örlitla pásu frá sveitalífinu og skella sér í laganám. Gerði gott betur og krækti sér einnig í eitt stykki málflutningsréttindi. Hún starfaði um tíma sem lögfræðingur hjá Póst- og fjarskiptastofnun eða þangað til hún eignaðist hann Gunnar Ómar. Eftir fæðingarorlof kallaði sveitin aftur og hún ákvað að leggja lögmennskuna á hilluna í bili og gerast kjúklingabóndi. Hún sér sko ekki eftir því enda finnst henni kjúklingarnir alveg æðislegir.

 

Elva er borgarbarn í húð og hár. Alin upp í Breiðholti og Garðabæ. Kynntist Margréti í laganáminu en einnig í gegnum eiginmann Margrétar sem er æskuvinur Elvu. Hún er einnig lögmaður og vann lengi sem slíkur. Breytti þó aðeins um stefnu þegar hún fluttist búferlum til Kosta Ríka til þess að leggja stund á mannréttindi og þjóðarétt. Hún hefur alltaf verið mikill dýravinur og var því ákvörðunin um að leggja lögmennskuna á hilluna og gerast kjúklingabóndi henni ekki erfið. Henni finnst kjúklingalífið frábært! 

 

Jóna starfaði sem bóndi á sínum yngri árum. Þekking hennar og reynsla á hinum ýmsu sviðum landbúnaðarins hefur nýst afar vel í kjúklingaframleiðslunni. Jóna býr í dag á Gunnarshólma ásamt eiginmanni sínum Gunnari en þar búa líka kjúklingarnir okkar. Á Gunnarshólma rækta þau hjónin einnig hross bæði til sölu og eigin nota auk þess sem þau selja þar sérræktaðar túnþökur. Margrét er dóttir þeirra hjóna.   

 

Hér má sjá hressandi myndband um Litlu gulu hænuna sem var gert af Atvinnumálum kvenna:

 

Litla gula hænan
Gunnarshólmi, 203 Kópavogur